Björn treður marvaðann á Skákdaginn!
23.1.2012 | 22:23
Ásamt því að vera í landsliði Íslands í skák er Björn fjölskyldufaðir í Vesturbænum og fögur er hlíðin!
Björn Þorfinnsson alþjóðlegur skákmeistari og landsliðsmaður teflir fjöltefli í Laugardalslaug klukkan sjö að morgni fimmtudagsins 26. janúar. Þann dag er Skákdagur Íslands haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn, tileinkaður Friðrik Ólafsson stórmeistara, sem verður 77 ára þennan dag.
Meðal andstæðinga Björns í lauginni verða Hilmir Freyr Heimisson og Heimir Páll Ragnarsson, sem báðir eru eitilharðir skákmenn af yngri kynslóðinni. Þær Hrund Hauksdóttir og Donika Kolica eru ekki síður efnilegar, og þá mun gamla brýnið Kristján Örn Elíasson einnig spreyta sig gegn Birni í lauginni.
Skák nýtur sívaxandi hylli í Laugardalslaug, eftir að Skákakademía Reykjavíkur gaf fljótandi taflsett í heita pottinn. Björn Þorfinnsson ætlar hinsvegar ekki að láta sig muna um að tefla í djúpu lauginni, sem þýðir að hann þarf að synda vænan sprett meðan hann teflir!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.